Formáli

Um leið og nafnaskrá þessi við „Ættir Austfirðinga“ kemur fyrir almenningssjónir, vil ég taka fram eftirfarandi:

1. Nafnaskráin er ekki tæmandi, að því leyti að öll nöfn, sem koma fyrir í „Ættunum“, eru ekki tekin með. Hefði það verið gert, hefði það orðið eins stór eða stærri bók en sjálfar „Ættirnar“.

2. Upphaflega var mér falið að skrifa þau nöfn ein, sem höfðu númer eða önnur merki. Við framkvæmd verksins kom í Ijós, að það var ófullnægjandi. Þá hefðu ýmsir fallið niður, sem óhjákvæmilega þurftu að vera með í nafnaskránni. Varð það því að ráði að taka einnig maka þá, er ekkert sérstakt númer höfðu, undir númeri maka síns. Við þetta stækkaði nafnaskráin um ca. fjórðung, en ætti nú yfirleitt að vera hægt að ganga að þeim manni, er finna skal, ef hann er nefndur undir eigin númeri, eða maka síns. Þó getur að sjálfsögðu orðið leit að manni, sem búið hefur á tveim eða fleiri stöðum, en við því verður ekki gert.

3. Tilhögun verksins: — Nafn (eða nöfn) og föðurnafn (og/eða ættarnafn, þar sem það er), staða, heimili, sveit eða byggðarlag, eftir því sem hægt er, númer og tilvísunarnúmer, sé það til.

Víða eru heiti bæja án sveitarnafns eða byggðarlags. Leitaði ég þá uppi nafn byggðarlagsins í jarðamatsbók, og bætti því við, til skýringar. Þar sem fleiri bæir heita sama nafni, lét ég sitja við bæjarnafnið eitt, ef ekki sveitar- eða byggðarlagsnafn fylgdu með, eða önnur rök sýndu, við hvaða bæ væri átt.

Um tilhögunina að öðru leyti skal þetta tekið fram:

a. Þar sem nöfn eru tvö eða fleiri, nefni ég oftast 1. nafn fullt, hin með einum staf. Þar sem maður notar 2. nafn, nefni ég það, en hitt (eða hin) oftast skammstafað í svigum fyrir aftan, á undan föðurnafni.

b. Heimili: — Þar sem maður hefur búið á fleiri stöðum en einum, tel ég oftast það heimilið, er hann dvaldi á síðast. Bendi „Ættirnar“ eða önnur gögn til þess hvar maðurinn hafi starfað lengst, þá tel ég hann yfirleitt þar.

Beri „Ættirnar“ ekki með sér, hvar maður hafi búið eða starfað, set ég „frá“ þeim stað, sem foreldrar hans bjuggu á. Hafi foreldrarnir búið á mörgum stöðum, og verði ekki séð af nr. eða tilvísunarnr., frá hvaða stað höf. telur manninn upprunninn, svo og ef ekkert er um manninn sagt að öðru leyti, er vísað geti til þess, hvar hann hafi verið, set ég aðeins nafn og föðurnafn (og/eða ættarnafn).

c. Röðun innan einstakra nafna (Jón Jónss., Guðrún Jónsd. o. s. frv.) hef ég hagað þannig: Fyrst tel ég alla þá, sem ég finn ekkert heimilisfang fyrir, næst þá, sem hafa ekki heimilisfang í „Ættunum“ en ég get talið „frá“ ákveðnum stað, er foreldrar þeirra hafa búið á. Í þriðja lagi eru svo þeir, sem taldir eru með heimili, eitt eða fleiri, og tel ég þá eins og lýst er í b.-lið hér á undan. — Um báða síðustu liðina er það að segja, að bæina set ég í stafrófsröð (frá Ásbrandsst., Felli, Guðmundarst., eða b., pr. o. s. frv. á þeim bæjum, sem þeir hafa búið á). Vilji ég t.d. finna Jón Jónsson, b. á Vakursstöðum, leita ég uppi Vakursstaði í bæjaröðinni undir „Jón Jónsson“. Jónarnir Jónssynir eru mjög margir og getur orðið tafsamt að finna þá, nema þessi háttur sé hafður á, og svo er um fleiri samnefni. — Undantekning frá þessu er þó „e“ (eldri) og „y“ (yngri) (um bræður eða systur, eða 1. og 2. o.s.frv. ef 2 eða fleiri systkini eru undir sama nafni). Þá hef ég „e“ á undan „y“, þótt „y“ sé hærri eða lægri í stafrófsröð dvalarstaðar, eða sé „frá“ eða ókunnugt um dvalarstað að öðru leyti.

d. Staða. — Ég nefni aðalstöðu mannsins: b. = bóndi, pr. = prestur o. s. frv. Hafi maður verið hreppstjóri eða lögréttumaður, set ég það í stað bóndi, þar sem bóndastaðan var áður fyrr aðalstaða slíkra manna. Hafi maður aftur verið dannebrogsm., alþingism., skáld o. s. frv., set ég það, auk aðalstöðu hans, þótt það lengi nokkuð málið. Um menn, sem stutt hafa búið, en annars er ekkert sagt um, set ég „bóndi“ og staðinn, þar sem hann bjó. Það er þó skárra en ekkert til að ákveða hann.

e. Númer. — Um það er ekkert að segja nema það, að ef maður er talinn á fleiri stöðum en einum með aðalnúmeri, set ég bæði (öll) númerin. Sama er að segja um það, að ef vitnað er til manns sem maka, þá set ég það númer, sem vitnað er til, sem aðalnúmer hans, þótt hann standi þar aðeins í skýringu eða upptalningu.

f. Tilvísunarnúmer. — Um þau er þetta að segja:

1) Við mjög marga menn þurfti að athuga tilvísunarnúmer, bæði til að sjá, hvar þeir höfðu búið og hvaða stöðu þeir höfðu haft, ef þess var ekki getið við aðalnúmer.

2) Við þessa leit kom stundum fram, að vitnað var í skakkt númer. Varð þetta því jafnframt leiðréttingarstarf. Fylgir sú leiðréttingarskrá hér með.

3) Við þennan samanburð kom fram, að höfundi hafði ekki enzt aldur til að gera hann að fullu. Hef ég því í nafnaskránni bætt inn í þeim tilvísunarnúmerum, sem ég hef fundið að vantaði. Tel ég að það muni létta nokkuð notkun „Ættanna“, þótt þessi tilvísunarnúmer séu aðeins tilfærð í nafnaskránni. Að sjálfsögðu er þetta þó ekki tæmandi, eins og fram mun koma við notkun nafnaskrárinnar, enda þarf einmitt nafnaskrána sjálfa til þess að því verði gerð full skil, nema með mjög mikilli yfirlegu og fyrirhöfn.

Það skal að lokum tekið fram, til glöggvunar við notkun, að ef aðalnúmerin eru fleiri en eitt, er komma sett á milli talnanna. Tilvísunarnúmer eru hins vegar táknuð með kommulausu bili eftir aðalnúmeri.

Hjálpargögn til hliðsjónar hafa verið þessi: Jarðamatsbækur, Íslenzkar æviskrár, Hver er maðurinn, kirkjubækur o. fl.

1. próförk hef ég lesið, 2. próförk las Einar Bjarnason, ríkisendurskoðandi, 3. próförk las Grímur M. Helgason, cand. mag.

Þá vil ég að lokum þakka þeim Benedikt Gíslasyni, Einari Bjarnasyni og Bjarna Vilhjálmssyni fyrir margar góðar leiðbeiningar. Sér í lagi vil ég þakka Einari Bjarnasyni fyrir athuganir hans og eftirlit við starf mitt, er ég var að leggja síðustu hönd á verkið.

Reykjavík, 15. nóvember 1967.
Jakob Einarsson.

Skammstafanir

1. Mannanöfn
(í samb. við þau).

m. = maður (eiginm.) 

k. = kona (eigink.)

Stytting á nöfn, þar sem það á við í samsetningu.

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2024.