EFTIRMÁLI

Með þessu bindi er lokið útgáfu á hinu mikla ættfræðisafnriti Einars prófasts Jónssonar á Hofi í Vopnafirði. Hefur hún staðið síðan litlu eftir 1950, að undirbúningur hófst, en fyrsta bindið kom út árið 1953 á aldarafmæli höfundarins. Hina ytri sögu þessa útgáfuverks frá minni hendi þykir mér ekki hlýða að rekja í neinu. Það liggur ljóst fyrir mönnum að skoða, að hér hefur verið um erfitt verk að ræða, en það er ekki síður að fást um það, hvað erfitt var að rata, þegar komið er heim. Það, sem veldur því, að mér þykir þörf á að rita þessi orð, sem eftirmála, er það að útgáfan skuldar mörgum mönnum þakklæti, en það mun fátt í ljós koma, ef þess er eigi getið hér.

Er hér fyrst að geta Einars ríkisendurskoðanda Bjarnasonar, sem verið hefur meðstarfsmaður minn að útgáfunni. Án þess að Einar veitti sitt liðsinni í upphafi, hefði ekki verið ráðist í útgáfuna, svo hér liggur það skýrt fyrir, hversu mikið þakklæti Einar á skilið fyrir sitt liðsinni, og ber verkið það með sér, hversu gaumgæfilega Einar hefur þar lagt hönd að verki. Þrátt fyrir það, að hann hefur verið störfum hlaðinn í sínu embætti. Það þakklæti í Einars garð mun fylgja verkinu — og hef ég ekki fleiri orð um. Þegar líða tók á útgáfuna og 5 bindi voru komin, þrengdist mjög fyrir mér um útgáfuhorfurnar. Sjötta bindið var í prentun, og allur kostnaður fór mjög vaxandi, en fjárvonir hinar sömu og áður, og ætíð þungar, en verkinu svo langt komið, að sársaukalaust fyrir alla gat það ekki orðið, ef útgáfan strandaði, svo að kalla í landsýn. Tók sig þá til ágætur Austfirðingur, Jón Þórðarson prentari í Edduprentsmiðjunni, og tók að safna fé til þess að erfiðasti hjalli útgáfunnar, lokin, yrði klofinn. Fékk Jón í lið með sér annan ágætan Austfirðing, Vilhjálm Þ. Gíslason, útvarpsstjóra, ásamt stjórn Austfirðingafélagsins í Rvík, til þess að fara fram á það við Alþingi að hækka styrk til útgáfunnar úr 20 þúsund krónum í 50 þús. krónur. Varð Alþingi við þessu, og fyrir þann styrk, sem það hefur veitt, flyt ég þakkir, en Alþingi hefur árlega veitt, fyrst 10 þús. kr. og síðar 20 þús. kr. til útgáfunnar, og hefur þetta verið ómetanlegur styrkur, sem ég vildi að gæti orðið endurgoldinn í einhverri mynt. Jón Þórðarson hefur auk þess safnað miklu fé meðal ágætra Austfirðinga hér í Reykjavík, svo útgáfan hefur verið fjárhagslega allvel tryggð að 6.—7. og 8. bindinu og síðan að nokkru að registursbindi, en það hefur samið sonur höfundarins, Jakob fyrrv. prófastur á Hofi í Vopnafirði. Er sá bókarauki lykill að verkinu, sem því fylgir síðan, og flytur sjálft Jakobi prófasti þakkir fyrir sitt mikilsverða framlag til útgáfunnar. Nöfn þeirra mörgu manna, sem hér hafa komið til liðsinnis geta ekki verið skráð hér, en það er ekki meiningin að þeim sjáist hvergi staður, því Jón hefur sagt mér, að söfnunarlistana geymi hann, og hyggist að láta binda þá með einu eintaki af verkinu, er síðar verði afhent Eiðaskóla, samkvæmt ráðstöfun minni í bókaleyfum útgáfunnar. Hefur starf Jóns, sem í öðrum hans verkum, verið frábært að elju og drengskap. Hefur skilningur þeirra, sem hér hafa lagt fram fé, á gildi verksins, verið örfandi og kann ég fá orð viðhlýtandi þakklætis. Múlasýslur hafa lagt fram nokkurt fé, og Suður-Múlasýsla um árabil 7.500 kr. og ber að þakka það sem bezt. Styrktarmenn ýmsa hefur útgáfan átt við bókasölur og fremstan þeirra ber að nefna Gunnlaug Jónasson, gjaldkera á Seyðisfirði, er frá upphafi hefur selt um 50 eintök af verkinu. Öllum slíkum færi ég mínar beztu þakkir.

Þá er þess að geta að höfundur hafði eigi gengið svo frá síðustu hlutum verks síns svo sem hugur hans stóð til, er hann andaðist. Eru það „Nokkrar ættir í Lóni“, sem að stofni til eru eftir Jón prófast Jónsson í Stafafelli, og „Reykjahlíðarættin“. Eru sérstaklega „Nokkrar ættir úr Lóni“, aðeins ágrip, og gátu tæpast orðið meira eftir þeim heimildum, sem höfundur fékk. Þetta höfðu þeir athugað báðir, Hjalti hreppstjóri í Hólum Jónsson og Sigurjón frá Þorgeirsstöðum Jónsson, rithöfundur. Báðir eru þeir fróðir í þessu efni og Hjalti sendi mér nokkurt efni, er um þetta fjallaði, en Sigurjón tók að sér að vinna nokkuð gerr úr þessu og einkum leiðrétta það sem rangt var, en mikinn bókarauka var hér ekki hægt að gera. Þó varð það að ráði, að Sigurjón jók við þetta nokkrum blaðsíðum, athugasemdum og íaukum við ættarnúmer, sem prentað er aftan við kaflann, sem sjá má. Hafði höfundurinn seilst eftir þessu hjá Jóni prófasti vegna hinna alkunnu fólksflutninga úr Skaftárþingi til Múlaþings, langan tíma, og þá einkum leitað þess ætternis þar syðra, sem síðan stóð í sambandi við ættir Austfirðinga. Reykjahlíðarættina athugaði aftur á móti Indriði fræðimaður frá Fjalli Indriðason, og jók bæði og leiðrétti nokkur atriði, og er það birt neðanmáls við hvert ættarnúmer. Er það fræðilega mjög traust, sem báðir þessir menn hafa hér lagt til og eykur gildi verksins, og mínar beztu þakkir flyt ég þeim fyrir sitt verk.

Enn er þess að geta, að til útgáfunnar varð að kaupa ljósprentun af handritinu, en það er eign Landsbókasafnsins og fékkst ekki lánað út. Hefur síðan orðið að vélrita þetta handrit fyrir prentun, og hefur það verið mikið verk og að fyrstu bindunum þrem önnuðust það þau hjón, Árni Benediktsson frá Hofteigi og frú Björg Bogadóttir, en síðan hefur vélritun annast Þorsteinn Thorlacius, fv. prentsmiðjustjóri í Eddu. Er hægt að segja það, að hér hefur verið drengilega leyst af hendi verk og af áhuga fyrir efni ritsins. Flyt ég þeim öllum innilegar þakkir fyrir sitt verk. Ritsafnið hefur verið prentað í Prentsmiðjunni Eddu, við sérstaka lipurð allra, er þar hafa lagt hönd að verki. Er sú lipurð og þolinmæði, sem mér hefur verið sýnd í prentsmiðjunni, eitt höfuðatriði þess að ritsafnið er nú komið allt á prent og tekur þá við registrið, sem prentað verður á sama stað, þótt í annarra umsjá kunni að verða.

Ég segi aftur öllum: Kærar þakkir!

Reykjavík, 15. ágúst 1966.

Benedikt Gíslason frá Hofteigi.

Ættir Austfirðinga

eftir Einar Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði.

Einar Bjarnason, endurskoðandi og Benedikt Gíslason frá Hofteigi sáu um útgáfuna.

Aðalútgefandi:
Austfirðingafélagið í Reykjavík 1953.

Merkingar

Ættliðina merkti höfundur í handritinu á svipaðan hátt sem tíðkast hafði á 18. og 19. öld.

Börn þeirra‚ sem talið er frá‚ bera að merki upphafsstaf úr latneska stafrófinu, koparstunguhandar, en börn þeirra einnig upphafsstaf úr sama stafrófi, eftirlíkingu af prentletri. Stafir þessir eru hér í prentuðu útgáfunni skáletursstafir hinir fyrrtöldu, en réttletursstafir hinir síðartöldu.

Fyrst nefnda barnið fœr bókstafinn A, annað B o. s. frv., og er röðin af handahófi, ekki eftir aldri barnanna nema e. t. v. þar sem kunnur er aldur þeirra allra.

Síðan koma að merki litlir stafir úr sama stafrófi, t. d. a, aa og aaa‚ allt að þremur stöfum‚ en þá taka við stafir úr gríska stafrófinu á sama hátt.

Síðan taka við merkin +, ++ og +++, en loks merkið °.

Prentsmiðjan hafði ekki allt gríska stafrófið og voru í þess stað notuð þessi merki‚ í röðinni sem hér segir: α‚ β, g, đ, ε, ſ, 3, į, «, cl, fi‚ k‚, í, ij‚ ^, t, ħ.

© Copyright 2024.